Saga af fyrstu æfingu að hausti þar sem nýr þjálfari fékk að kynnast framtíðarstjörnum Magna.
Komið var að spili eftir fína æfingu þar sem iðkendur höfðu sýnt listir sínar í stórfiskaleik og skotum. Eftir ójafnan leik ákvað þjálfarinn að bregða á það ráð að skella Kristófer í markið, enda kominn með þrennu á skömmum tíma. Þetta var kauði ekki sáttur með enn þrammaði þó í átt að eigin marki. Hélt hann á knettinum og átti að koma honum í leik, kölluðu liðsfélagar hans til skiptis að senda boltann á sig á meðan aðrir hlupu í hringi eða lágu á jörðu niðri. Það sem gerðist næst átti eftir að festast í minningu undirritaðs um ókominn tíma. Snáðinn á fimmta aldursári tók þá boltann og skaut honum á loft. Tíminn stóð í stað, drengirnir sem áður höfðu kallað á boltann göptu nú upp í loftið á meðan að einn guttinn sem lág sá boltann birtast skyndilega fyrir ofan sig, það var líkt og við höfðum séð stjörnuhrap að degi til í miðju íþróttahúsinu. Flaug boltinn yfir varnarlausan markmanninn í gangstæðu marki án þess að hafa nokkurn tíman viðkomu í gólfið. Brast svo í kjölfarið út mikill hlátur meðal viðstaddra og héldum við síðan leik okkar áfram.
Athugasemdir