Áramótakveðja 2018 - Uppgangur Magna síðustu árin

Áramót 2018
Áramót 2018
 

         Uppbygging Íþróttafélagsins Magna Grenivík

 

Starfið

 Íþróttafélagið Magni Grenivík var stofnað árið 1915. Félagið heldur úti meistaraflokki karla í knattspyrnu ásamt öflugu starfi í yngri flokkum en samtals eru iðkendur í Magna um 80 talsins, börn og fullorðnir, sem er mjög gott í 360 manna sveitarfélagi.

Hressar Magnastelpur á Króksmóti, framtíðin er björt á Grenivík

Hressar Magnastelpur á Króksmóti, framtíðin er björt á Grenivík

Mikill kraftur er í yngri flokka starfinu og leggjum við mjög mikla áherslu á að hafa sem hæfastan þjálfara í og yfir starfinu. Hefur félagið lagt mikla áherslu á að vera með þjálfara sem eru með menntun á vegum KSÍ, hafa brennandi áhuga á starfinu og eru góðar fyrirmyndir innan sem utan vallar. Félagið hefur haft flotta þjálfara í gegnum árin sem samtvinna allt sem talið er upp hér á undan. Öflugt foreldraráð er hjá Íþróttafélaginu Magna sem í sitja 8 foreldrar og kappkosta þeir við að hafa starfið sem faglegast. Magni hefur í gegnum tíðina skaffað alla keppnisbúninga og æfingafatnað fyrir alla krakka sem æfa með félaginu. Markmiðið hefur ætíð verið að foreldrar komist af með eins lítinn kostnað og hægt er, er það einstakt þegar litið er yfir landið og miðin. Því þurfum við öfluga styrktaraðila í lið með okkur sem gera starfið einstakt. Það hefur tekist með samstilltu átaki frábærra fyrirtækja.
 

Grenivíkurvöllur og deildarkeppni

 Tri-King stoltur eftir slátt

Tri-King stoltur eftir slátt

Árið 2011 var ákveðið að endurbyggja grasvöll félagsins á sama stað og hann hefur staðið allt frá upphafi. Allt gras var tekið af vellinum og var vallarstæðið hækkað um rúman 1,5 metra, möl var keyrt í völlinn og síðan kom sandur og mold áður en nýtt og flott gras var sett á völlinn. Var þetta nauðsynleg aðgerð því Grenivíkurvöllur var orðinn frægur fyrir hæðir, hóla og stór grjót sem stóðu upp í gegnum grasið á nokkuð mörgum stöðum. Oft kvöddu leikmenn aðkomuliða völlinn vel skaddaðir og blóðugir fyrir neðan hné. En í dag er völlurinn hinn glæsilegasti og mikið er í hann lagt á hverju vori til að hafa hann eins góðan og hægt er. Mikill kraftur er í starfi meistaraflokks félagsins og hefur Magni tekið þátt í deildarkeppni KSÍ frá árinu 1972. Árið 1979 lék liðið í 2. deild (næst efstu deild á þeim tíma).

 Einbeiting

Einbeiting

Ef við tökum saman árin eftir uppbyggingu Grenivíkurvallar þá eru það afar góðir og skemmtilegir tímar. Árið 2011 var Magni í gömlu 3. deildinni sem var riðlaskipt og komst Magni í undanúrslit það árið, tapaði félagið þeirri rimmu gegn KV úr Vesturbænum.  Árið 2012 var Magni í sömu stöðu, komst liðið í undanúrslit en tapaði þar fyrir liði Ægis úr Þorlákshöfn. Árið 2013 tók Magni þátt í nýrri 10 liða 3. deild, félagið endaði í 8. sæti það árið. Sama var uppi á teningnum árið 2014 en þá endaði liðið sæti ofar eða í 7. sæti í 3. deildinni.

 

Uppbygging og aukinn kraftur        

Íslandsmeistaratitli 3. deildar fagnað 2015

Íslandsmeistaratitli 3. deildar fagnað 2015 

Á aldarafmæli Íþróttafélagsins Magna árið 2015 var ákveðið að setja mun meiri kraft í starfið, héldum við upp á áfangann allt það sumar með pompi og prakt. Enduðum við afmælisárið á því að fara upp úr 3. deildinni með stæl, sigruðum við 3. deildina það ár með nokkrum yfirburðum eða með 9 stiga mun á liðið sem endaði í öðru sæti.  Síðan þá höfum við byggt ofan á okkar frábæra starf, enduðum við í 5. sæti í 2. deild sumarið 2016. Árið 2017 gældum við Magnamenn við það að koma okkur upp í Inkasso deildina eða næst efstu deild Íslandsmótsins, þótti sumum bratt farið í væntingunum, en með góðu og kraftmiklu starfi og samheldnum og öflugum hóp leikmanna, þjálfara og velunnara tókst okkur ætlunarverkið, liðið endaði í öðru sæti 2. deildar og var Inkasso draumur félagsins orðin að veruleika. Besti árangur í sögu Magna náðist á síðasta ári þar sem liðið hélt sér uppi í Inkasso deildinni. Gríðarlega stórt og mikið afrek fyrir lítið félag eins og Magna að vera á þessum stað í dag. Grýtubakkahreppur og Grenivík er fámennasta byggðarlagið sem komist hefur á þennan stað, vekjum við mikla athygli hvar sem við komum með öflugum og léttleikandi liðsanda og viljum við halda því þannig. 

 

 Stúkan, blaðamanna og sjoppuaðstaða

Stúkan, blaðamanna og sjoppuaðstaða

Úr leik Magna og Þórs í Inkasso 2018

Úr leik Magna og Þórs í Inkasso 2018

Nokkuð margt breyttist við það að komast upp í Inkasso deildina, vorum við þar með komnir inn í leyfiskerfi KSÍ, hvað er það, ekki nema von að menn spyrji..... Þurftum við að koma upp stúkubyggingu, sjoppu og blaðamannaaðstöðu fyrir fyrsta tímabil í Inkasso deildinni. Eins og sönnum sveitamönnum sæmir þá var ekkert verið að láta þær framkvæmdir trufla stemninguna í kring um liðið og starfið nema síður sé. Reistum við 400 manna stúku á mettíma og komum við upp aðstöðu fyrir sjoppu og  blaðamenn, tvö vel innréttuð gámahús voru sótt til Reykjavíkur, sjoppa og kaffiaðstaða í neðra gámahúsinu og blaðamenn í efra gámahúsinu. Síðastliðin 2 ár höfum við sýnt heimaleiki Magna í beinni útsendingu, eða á Magni TV, já við erum stórhuga en þetta væri ekki hægt nema með hjálp okkar frábæru stuðningsmanna. Mjög margir fylgjast með þessum útsendingum og berst hróður okkar víða vegna þessa. Umgjörðin er frábær á vellinum, sást það vel á fyrsta ári félagsins í Inkasso deildinni. Leikir Magna voru gríðarlega vel sóttir og sést það á áhorfendatölum nokkurra leikja að áhorfendur voru mun fleiri en íbúar alls sveitarfélagsins. 

Verðum við að nefna að þegar nágrannar okkar í Þór komu í heimsókn á Grenivíkurvöll seldust 804 miðar á leikinn, gera má ráð fyrir að um 1.000 manns hafi verið á umræddum leik. Getum við fullyrt að það hafi aldrei gerst hvorki fyrr né síðar á knattspyrnuleik á Íslandi að áhorfendafjöldi væri þrefaldur íbúafjöldi byggðarlagsins. (Til viðmiðunar þá er það eins og það gerðist t.d. á leik hjá Þór á Akureyri að það myndu mæta um 50.000 manns.)

 

Vallarhús og uppbygging

En áfram gakk og Magni mun taka þátt í Inkasso deildinni sumarið 2019. Íþróttafélagið Magni er að reisa aðstöðuhús fyrir félagið vestan við Grenivíkurvöll. Byrjað var að setjast yfir þetta verkefni 15. mars og hefur byggingin tekið nokkrum breytingum síðan þá, gott var að hafa KSÍ með í ráðum upp á allar reglugerðir með stærðir klefa og þessháttar.

 Vallarhús að taka á sig mynd 

Vallarhús að taka á sig mynd

Samkvæmt leyfiskerfi KSÍ þarf félagið að koma upp vallarhúsi því undanþága fyrir gömlu klefana er fallin úr gildi. Helsta ástæða þessarar byggingar er sú að ef Magni þyrfti að spila  heimaleiki sína á Akureyri, þar sem öll aðstaða er fyrir hendi sem uppfyllir leyfiskerfi KSÍ, yrði það upphafið að endinum hjá félaginu. Einnig hefur það töluverð áhrif þegar loka þarf sundlaug Grenivíkur á leikdögum eins og aðstaðan er hjá félaginu í dag. Í húsinu mun verða góð búningsaðstaða fyrir bæði lið sem og dómara, einnig mun verða þar salernisaðstaða fyrir leikmenn, dómara og áhorfendur. Þá er gert ráð fyrir skrifstofu og fundarherbergi fyrir félagið ásamt aðstöðu til að vera með kaffi fyrir heimalið og gesti eftir alla leiki Magna. Einnig býður húsið upp á 105 m2sal sem er á efri hæð til útleigu fyrir minni veislur og viðburði með ágætri eldhúsaðstöðu. 

Verður þetta mikil bylting fyrir Íþróttafélagið Magna og starfsmenn þess þar sem félagið mun fá fast aðsetur inn í framtíðina fyrir öll gögn og verðmæti félagsins. Mikil breyting verður fyrir iðkendur félagsins með komu hússins, þar munu iðkendur fá búningsaðstöðu og hægt verður að fara á góða salernisaðstöðu sem hefur verið ábótavant í gegn um árin. 

 Stúkan og grasbalinn þétt setinn

Stúkan og grasbalinn þétt setinn

Á leikdögum Íþróttafélagsins Magna s.l. sumar er óhætt að segja að bærinn hafi farið á hvolf. Loka þurfti stærstu umferðargötu bæjarins í 3 klst með tilheyrandi óþægindum meðan leikurinn fór fram og einni klukkustund fyrir leik. Það þurfti að gera til að leikmenn, dómarar og starfsmenn leiksins kæmust óhultir yfir götuna því búningskefar eru í um 150 metra fjarlægð frá velli. Einnig var veginum lokað vegna þess að salernisaðstaða fyrir áhorfendur er í skólanum og fara þurfti yfir þessa umræddu umferðargötu. Tókum við enga áhættu á að börn og fullorðnir sem þyrftu að nota salernisaðstöðu í miðjum leik færu yfir ólokaða götuna.
 

Þakklæti

Já það er óhætt að segja það að síðustu starfsár Íþróttafélagsins Magna hafi verið afar viðburðarrík. Hefur félagið sett mikinn svip á allt líf íbúa Grýtubakkahrepps og hafa íbúar tekið virkan þátt í velgengni félagsins með því að koma á Grenivíkurvöll og styðja liðið áfram þar og einnig að fylgja liðinu á útivelli. Magni er mikið og gott vörumerki fyrir Grenivík, á ferðum félagsins í útileiki þá vita menn að Magni er að koma í heimsókn en í framhaldinu þá eru ekki allir með það á hreinu hvaðan Magni kemur, þess vegna fylgir þessi setning ansi oft „Magni Grenivík“.

Að endingu þá viljum við stjórnarmenn í félaginu koma á framfæri þakklæti til allra þeirra fjölmörgu sem styðja og stutt hafa félagið í gegn um súrt og sætt og allra þeirra sem fylgst hafa með okkar mögnuðu uppbyggingu í gegn um árin, það er jú fólkið sem gerir félagið að því sem það er í dag.

 Vallarstæðið þykir mjög fallegt og völlurinn skartar sínu fegursta sumarið 2018

Vallarstæðið þykir mjög fallegt og völlurinn skartar sínu fegursta sumarið 2018

Grenivíkurvöllur á fallegum sumardegi 2018

Grenivíkurvöllur á fallegum sumardegi 2018

 

Áfram Magni allstaðar !

Gísli Gunnar Oddgeirsson

Framkvæmdastjóri Magna


Athugasemdir